Category: Uncategorized
Fjárfest í innviðum og þjónustu
Grein birt í Eystrahorni og á www.hornafjordur.is
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar var lögð fyrir bæjarstjórn til síðari umræðu miðvikudaginn 14. desember. Fjárhagsáætlun næsta árs einkennist af forgangsröðun fjármuna til innviðauppbyggingar og þjónustu við íbúa. Gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða næsta árs hjá samstæðu verði jákvæð sem nemur 238 milljónum króna.
Rétt forgangsröðun
Að forgangsraða fjármunum líkt og áherslur fjárhagsáætlunar næsta árs bera með sér er rétt forgangsröðun að mati núverandi meirihluta. Fræðslu- og uppeldismál ásamt velferðarmálum eru eins og gengur, lang stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins en þegar við skoðum aðrar áherslur kemur eitt orð upp í hugann – innviðauppbygging.
Stærstu verkefnin á næsta ári
Við ætlum að ráðast strax í viðbyggingu við leikskólann Sjónarhól. Við munum gera átak í endurbótum á leikvöllum. Við ætlum að bæta götulýsingu og led ljósvæða sveitarfélagið og stórauka þannig öryggi fólks, ekki síst okkar barna. Við förum af fullum krafti í fráveituáfanga fjögur ásamt því að gera skurk í malbikun gatna og lagfæringu gangstíga. Einnig verður ráðist í bráðnauðsynlegt viðhald og endurbætur á ýmsum fasteignum bæjarins.
Þá eru ótalin önnur risastór verkefni eins og kostnaður sveitarfélagsins við nýtt hjúkrunarheimili sem hleypur á hundruðum milljóna. Kostnaður við nýja slökkvibifreið er áætlaður um 100 milljónir á árinu en ný bifreið kemur til okkar í lok árs og mun auka öryggi íbúa til muna. Þá gefst einnig tækifæri til að skipta út slökkvibifreið í Öræfum og bæta öryggi íbúa þar.
Það er líka vert að nefna hér nokkur mjög stór verkefni annarra aðila en sveitarfélagsins sem eru á stefnuskránni og gefa okkur tilefni til bjartsýni. Þar ber fyrst að nefna nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót sem mun gjörbreyta til batnaðar umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Vegurinn mun stytta leiðina til Hafnar um 12 km og fækka einbreiðum brúm um þrjár. Svo hefjast fljótlega framkvæmdir við stórt hótel á Reynivöllum í Suðursveit og síðast en ekki síst er nýr og glæsilegur miðbær á Höfn er á fullu í hönnunarferli.
Við leitum allra leiða til þess draga úr álögum
Samhliða miklum framkvæmdum er leitað allra leiða til að draga úr álögum á bæjarbúa og styðja við bakið á heimilunum. Þar ber hæst að fasteignaskatts hlutfall á heimili er lækkað úr 0,41% í 0,37% en álagning á atvinnuhúsnæði verður færð í það sama og hún var fyrir Covid og hækkar úr 1,49% í 1,65%. Vatnsgjald verður óbreytt og holræsagjald einnig. Sorpgjöld hækka skv. gjaldskrá um 10% enda ber okkur skylda til að taka skref í átt til þess að málaflokkurinn standi undir sér og er þetta viðleitni í þá átt.
Við setjum skipulagsmál í forgang
Þegar litið er til næstu fjögurra ára má sjá þann mikla sóknarhug sem er í sveitarfélaginu. Hafin er undirbúningur fyrir nýtt stórt íbúðahverfi á reitnum sem kallast ÍB5 norðan við tjaldsvæðið okkar, en eftir jarðvegskönnun á svæðinu hentar það svæði mun betur til að fara í skipulag strax en svæðið sem kallast ÍB2, á leirunum austanverðum. Íbúðir í byggingu hjá okkur fara ekki saman við íbúðaþörfina og þess vegna er mikilvægt að hraða eins og kostur er skipulagi stærri íbúðabyggðar.
Þriggja ára áætlun og þrjú mál
Þegar skoðuð er þriggja ára áætlun kemur í ljós að staða Sveitarfélagsins Hornafjarðar er sterk til lengri tíma litið, að því gefnu að okkur beri gæfi til að missa ekki augun af því mikilvæga hlutverki að einbeita okkur fyrst og fremst að kjarna rekstri samfélagsins. Varðandi þriggja ára áætlun langar okkur að nefna sérstaklega þrjá þætti:
- Sindrabær
Við ætlum að nýta tímann á næsta ári í að yfirfara þá hönnun sem til er að Sindrabæ og skoða hvort hún mæti okkar þörfum í dag. Við setjum stefnuna á framkvæmdir í Sindrabæ á árinu 2024.
- Framtíðar uppbygging íþróttamannvirkja
Hvað varðar uppbyggingu á íþróttamannvirkjum hefur umræða um þau mál verið lifandi og upplýsandi undanfarið. Nokkurrar óánægju hefur gætt vegna frestunar á framkvæmdum við nýja líkamsræktarstöð og erum við öll meðvituð um það og skiljum vel gremju sumra vegna þess enda um mikilvægt lýðheilsumál að ræða. Við höfum nú þegar hafið vinnu við að endurmeta forgangsröðun á framtíðaruppbyggingu á íþróttamannvirkjum í öllu sveitarfélaginu, ekki eingöngu í þéttbýlinu á Höfn. Í þessari vinnu er allt undir og ekkert hefur verið ákveðið né slegið út af borðinu. Við bindum vonir við að út úr þessari vinnu komi metnaðarfull áætlun til lengri tíma, sem sveitarfélagið ræður við og að sem mest sátt sé um meðal íbúa.
- Gamlabúð og Mikligarður
Í lok mars á næsta ári, 2023, mun leigusamningur við Vatnajökulsþjóðgarð um Gömlubúð renna út og hefur þjóðgarðurinn lýst yfir eindregnum vilja til að flytja allt sitt starfsfólk í Nýheima og vonandi byggja upp þar til lengri tíma. Ekki var vilji hjá þjóðgarðinum að færa starfsfólk sitt í Miklagarð og telja þau ásamt Framkvæmda- og fjársýslu ríkisins og Umhverfisráðuneytinu húsið alls ekki henta undir framtíðaraðsetur þjóðgarðsins. Fyrir okkur liggur þá að eiga samtal við samfélagið um framtíðarhlutverk Gömlubúðar og Miklagarðs og finna þessum verðmætu húsum okkar verðugt hlutverk til framtíðar.
Ábyrgur rekstur til framtíðar
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur blessunarlega verið vel rekið sveitarfélag og mun vera það áfram. Og það er þess vegna sem við getum lagt fram svo metnaðarfulla fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Áætlun þar sem áherslan er á innviði og þjónustu við íbúa, fjárhagsáætlun sem við getum öll verið stolt af.
Gauti Árnason forseti bæjarstjórnar
Eyrún Fríða Árnadóttir formaður bæjarráðs
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri
Súpufundur með Guðrúnu Hafsteinsdóttur
Á föstudaginn ætlar Guðrún Hafsteinsdóttir að koma til okkar í Sjallan og halda súpufund. Fundurinn hefst kl 12:00 og eru allir velkomnir.
Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Austur-Skaftafellssýslu 2022
Sigurjón Andrésson ráðinn bæjarstjóri
Sigurjón Andrésson hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, en það var samþykkt á fundi bæjarráðs í dag. Hann mun hefja störf 1. júlí nk.
Á vefnum www.hornafjordur.is kemur eftirfarandi fram:
Sigurjón er 52 ára og búsettur í Hvítholti í Flóahreppi. Hann hefur undanfarið starfað sem ráðgjafi hjá Góðum samskiptum í Reykjavík ásamt því að vera verkefnastjóri flóttamanna hjá Sveitarfélaginu Ölfusi. Sigurjón situr í sveitarstjórn Flóahrepps en mun segja sig frá þeim störfum í kjölfar ráðningarinnar.
Sigurjón starfaði lengi vel sem stjórnandi hjá tryggingafélaginu Sjóvá, lengst af við kynningar- og markaðsmál ásamt öryggis- og forvarnamálum. Þá var hann framkvæmdastjóri markaðsmála hjá BL bílaumboði.
Sigurjón er iðnmenntaður í grunninn með diploma í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, alþjóðlega gráðu í verkefnastjórnun frá Bandaríkjunum og meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá Háskólanum í Reykjavík.
Sigurjón býr sem stendur ásamt fjölskyldu sinni í Hvítholti í Flóahreppi, rétt austan við Selfoss. Hann er giftur Margréti Söru Guðjónsdóttur kennara við Menntaskólann í Reykjavík og eiga þau tvær dætur, 22 og 24 ára.
Sigurjón segist vera “geysilega spenntur fyrir nýjum áskorunum. Það er mikill metnaður í því fólki sem ég hef þegar hitt og veit að það eru mikil tækifæri fram undan hjá sveitarfélaginu. Ég hlakka til að flytja austur og kynnast samfélaginu betur og mun leggja mig allan fram í mínum störfum fyrir sveitarfélagið.“
Það er okkur mikil ánægja að fá Sigurjón til liðs við okkur, þar fer vandaður einstaklingur sem skilur lítið samfélag eins og okkar. Hann kemur að borðinu með mikla þekkingu og kraft sem verða mun ein af forsendum þess að sá vilji sem birtist í nýafstöðnum kosningum nái fram að ganga. Við bjóðum Sigurjón velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins við hann.
Kjördagur
Á kjördag er opið í Sjallanum, Kirkjubraut 3 frá 11:00-17:00
Kl 14:00 hefst kosningakaffið og verða frambjóðendur að sjálfsögðu á svæðinu.
Í kvöld verður svo Kosningavaka og hefst hún kl 21:00
Áfram X-D
Lífið eftir vinnu
Lífið eftir vinnu, hvernig er því háttað í Sveitarfélaginu Hornafirði? Þetta er meðal þeirra spurninga sem væntanlegir nýbúar spyrja sig þegar þeir kanna svæði til búsetu. Og það gildir um allt sveitarfélagið. Öll höfum við þarfir og langanir til að sinna fjölbreyttri afþreyingu sem og eflingu hugar og líkama.
Það eru margir sem koma að slíku, einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.
Hvað gerir sveitarfélag til að stuðla að því að það sé áhugavert að koma og búa í okkar samfélagi, nú eða halda áfram að búa með okkur eftir starfslok?
Það er hlutverk sveitarfélags að hafa skipulagið fyrirsjánlegt, eiga byggingalóðir sem og lóðir fyrir atvinnuhúsnæði. Stuðla að því að nægt framboð sé af leikskólaplássum og að standa þétt við grunnskólana. Einnig er nauðsynlegt að styðja við félagasamtök og einstaklinga til að standa að fjölbreyttu menningar- og íþróttastarfi.
Það að geta farið á hestbak, á kajak, í golf eftir vinnu, eða leyfa börnunum okkar að stunda ýmsar íþróttir, tónlistarnám eða annað listnám eru sjálfsögð lífgæði sem við sem lifum á 21. öldinni viljum njóta.
Svo við tölum nú ekki um að geta sungið í öllum okkar frábæru kórum, farið á söfn eða tekið þátt í leikfélaginu okkar sem fagnar 60 ára afmæli á þessu ári.
Auðvitað er mikið sem hægt er að bæta í öllu Sveitarfélaginu Hornafirði. Okkur í Sjálfstæðisflokknum langar t.d. mikið til að stuðla að frekari uppbyggingu í Öræfum, þar sem mikil fjölgun er af ungu og kraftmiklu fólki. Okkur langar að halda áfram samtalinu sem hafið er, hvort sem það er á vettvangi hverfisráðs sem við viljum stofna nú eða bara með beinu samtali við þá Öræfinga sem áhugasamir eru um slíkt. Við sjáum fyrir okkur mikið meira samstarf, bæði við þau fyrirtæki sem eru starfandi í dreifbýlinu, Vatnajökulsþjóðgarð, sem og skólayfirvöld. Við teljum að allir vilji, og séu á sömu brautinni um aukna velferð allra íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Á Höfn er einstakt hvað við eigum marga möguleika til afþreyingar, sama hvort það er að sigla um fjörðinn okkar, t.d. á kajak, þeytast um á motocrossbrautinni, stunda hestamennsku eða æfa hinar ýmsu íþróttir sem félögin sem og fyrirtæki okkar bjóða uppá, nú eða bara ganga um í Óslandinu. Betur má ef duga skal, við þurfum að gera betur t.d. fyrir þau ungmenni sem ekki finna sig í hefðbundnu íþróttastarfi, finna farveg fyrir þau til að blómstra t.d. í leiklist, kvikmyndagerð eða öðrum skapandi greinum, við þurfum að nýta orkuna þeirra til að auðga samfélagið okkar enn frekar. Það að taka þátt í slíku starfi hefur gríðarlegt forvarnargildi fyrir börn og ungmenni og það er eitthvað sem við viljum öll stuðla að.
Svo er það lífið eftir vinnu þegar við verðum komin á þann aldur að hafa valið um að hætta að mæta til vinnu. Við sem samfélag þurfum alltaf að hafa það í huga að halda vel utan um þann stækkandi hóp, og við viljum öll geta boðið uppá fjölbreytni fyrir alla aldurshópa. Ágætt starf er hér á Höfn fyrir eldri íbúa, en auðvitað þarf að styðja það enn frekar, t.d. með eflingu starfs virkniþjálfa, bjóða upp á enn frekari líkamsþjálfun. Einnig væri ákjósanlegur frekari stuðningur við félag eldri íbúa til að hvetja til ýmisskonar menningarstarfs eða hvers annars, þar sem við öll íbúar samfélagsins fengjum að njóta, sama hver staða okkar er. Sú hugmynd hefur verið viðruð hjá okkur, hvort við gætum ekki nýtt félagsheimilin okkar í sveitarfélaginu betur, t.d. með að koma á skipulögðu félags- eða tómstundastarfi fyrir eldri íbúa til sveita, t.d. með reglulegri viðveru þjálfara eða kennari í hinum ýmsu íþróttagreinum, og eða hverju öðru sem íbúarnir hefðu áhuga fyrir.
Aðalatriðið er að við erum öll eitt samfélag hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, sem er fyrir alla. Tölum saman, verum heiðarleg, fordæmum ofbeldi, sama í hvaða formi það birtist, aukum gæði samfélagsins okkar og styðjum þannig hvert annað í leik og starfi.
Við Sjálfstæðismenn í Sveitarfélaginu Hornafirði óskum eftir stuðningi ykkar í kostningunum þann 14. maí n.k.
Setjum X við D.
Gauti Árnason.
Íbúalýðræði
Í dag þykir sjálfsagt að valdhafar boði íbúalýðræði og bjóði almenningi til samtals með fundum, bæði í raunheimum og á rafrænum fundum þar sem íbúar fá að segja sína skoðun á málefnum dagsins og hafa áhrif á gang mála í sínu nær samfélagi. Tækninni fleygir fram og því verður auðveldara að fá fram vilja almennings í hinum ýmsu málum sem snúa að þeirra daglega lífi
Þetta er fyrirbæri sem ég er ákaflega hrifin af. Ástæðan fyrir því er sú, að ég veit að ég er ekki með bestu úrlausnina í öllum málum og á það nú við um fleiri.
Þess vegna eru meiri líkur á skynsamlegri niðurstöðu ef fleiri koma að borðinu þegar tekin er ákvörðun. Það er líka auðveldara að rökstyðja framkvæmdir þar sem íbúar hafa fengið að segja sína skoðun á málinu. Ég held að íbúar sem fá að ráða einhverju um hverfið sitt, leiksvæði, göngustíga eða hvað sem gæti bætt nærumhverfið, séu sáttari við breytingarnar ef þau eru höfð með í ráðum.
Núverandi meirihluti í bæjarstjórn hefur verið duglegur að boða íbúalýðræði á þessu kjörtímabili. Það er ekki sjálfgefið að stjórnvöld útdeili völdum og treysti íbúum fyrir ákvörðunum verkefna. Það hafa verið fundir um ýmis málefni þar sem íbúar sveitarfélagsins hafa fengið að segja sína skoðun á málefnum dagsins. Íbúar hafa verið spurðir um þeirra skoðanir á fjölmörgum málefnum t.d. skipulags málum , nýjum íbúðahverfum, útivistarsvæðum og hvar íbúar vilji sjá bæjargarð/útivistargarð fyrir bæjarbúa svo eitthvað sé nefnt.
Og þá komum við að kjarna málsins, til þess að þetta geti orðið að raunverulegu íbúa lýðræði þá þarf fara eftir þeim niðurstöðum sem flestir velja.
Því miður hafa engar af hugmyndum íbúa sem tóku þátt í þessum verkefnum meirihlutans, orðið að veruleika. Hvort sem að íbúar hafa valið nýtt íbúðahverfi , bent á leiksvæði í sínu hverfi eða bæjargarðurinn sem fékk langflest atkvæði á miðsvæðinu í verkefninu um Norræna sjálfbæra bæi þar sem íbúar fengu að velja sína „staði“ í bænum til uppbyggingar.
Á sameiginlegum framboðsfundi í Nýheimum, nýverið, gáfu framsóknarmenn það út að ekki yrði útbúinn bæjargarður á miðsvæðinu, þar sem Humarhátíðin hefur verið haldi síðustu ár, við miklar vinsældir bæjarbúa.
Frekar ætti að styrkja götumyndina með því að byggja 2 hæða hús á lóð 38 við Hafnarbraut sem mun útiloka bæjargarð á þessum stað og að öllum líkindum varpa skugga á sundlaugina á vorin og haustin.
Það eina sem klikkaði hjá meirihluta Framsóknarflokksins var að gera það sem felst í íbúalýðræðinu, að fara eftir því sem fólkið valdi. Annars heitir það ekki lýðræði.
Páll Róbert Matthíasson
14. Sæti lista Sjálfstæðisflokksins
Það er mikið um að vera hjá okkur þessa vikuna.
Það er nóg um að vera hjá okkur en kosningaskrifstofan er opin alla virka daga frá 17-19. Frambjóðendur eru á staðnum og gott að ná góðu spjalli þar.
Allir velkomnir
Sveitarfélagið Hornafjörður fyrir alla
Samgöngur fyrir alla í Sveitarfélaginu Hornafirði
Ein af grunn forsendum þess að sveitarfélagið geti stækkað og dafnað eru öruggar og góðar samgöngur. Ný veglína í Öræfum kemur til með að taka af hættulegar einbreiðar brýr og óveðurskafla sem oft valda hættu. Ný veglína kemur til með að stytta þjóðveg 1 verulega. Ágangur sjávar við Jökulsárlón veldur mér áhyggjum. Þar hafa menn sofið á verðinum. Þar þarf að verja land og mannvirki gegn ágangi sjávar. Vegna ágangs sjávar og sandfoks sem veldur stór tjóni við Jökulsárlón hefur ítrekað komið til ótímabærrar lokunar á þjóðvegi 1. Nú þegar hefur þurft að flytja raflínur og þjóðveg 1 vegna landrofs. Þá þarf að komast á framkvæmdar áætlun ný tvíbreið brú yfir Kolgrímu. Ný veglína í Lóni þarf einnig að koma til framkvæmdar. Lónsheiðargöngum eigum við að taka fagnandi og styðja við bakið á þeirri framkvæmd. Núverandi þjóðvegur í þéttbýli liggur við grunnskólabyggingar og íþróttamannvirki. Þar fer um öll þungaumferð frá hafnarsvæði og iðnaðarsvæði sveitarfélagsins. Því þurfum við að ákveða hvar við viljum leggja Þjóðveginn í þéttbýli. Flugvöll sveitarfélagsins þurfum við að standa vörð um svo að hann verði ekki lagður af. Hann er okkar öryggistæki og samgöngutæki. Hafnarmannvirkjum sveitarfélagsins þarf að halda við og klára kanta og gera höfnina öruggari og fallegri ásýndar með grjóthleðslum , stálþilum o.fl. Innsiglingin þarf að vera fær sjófarendum öllum. Grynnslin þarf að dýpka og halda efni þar frá. Rannsaka þarf efnisburð svo hægt sé að bregðast við til framtíðar.
Skipulagsvinna má ekki standa í vegi fyrir því að þetta allt sem hér er ofan talið komist til framkvæmda.
Ég hlakka til að taka þátt í því að koma þessum verkefnum í framkvæmd með ykkar stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn á kjördag 14.maí 2022, X-D!
Skúli Ingólfsson, verkstjóri.
3.sæti Sjálfstæðisflokksins, Sveitarfélagið Hornafjörður fyrir alla.