Stefnumál 2022

Hér koma inn stefnumál Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosninga
English below

Atvinnumál 

Ýtum undir fjölbreytt atvinnulíf með nýsköpun að leiðarljósi. Eflum starf atvinnumálafulltrúa í fullu samstarfi við fyrirtæki og félagasamtök.

Nýtum tækifærin sem flutningur höfuðstöðva Vatnajökulsþjóðgarðs og ferðaþjónustan gefa til eflingar samfélagsins.

Höfum nægt framboð af fjölbreyttum atvinnulóðum fyrir allar stærðir og tegundir af atvinnustarfsemi. Höldum á lofti málefnum Hornafjarðarflugvallar við viðeigandi yfirvöld til frekari uppbyggingar og notkunarmöguleika.

Stöðugt þarf að ýta á reglulegt viðhaldi á innsiglingunni um Hornafjarðarós, sem og viðhaldi og endurnýjun hafnarmannvirkja.

Skipulagsmál 

Allstaðar í sveitarfélaginu þarf að bjóða upp á lóðir, hvort sem það eru stórar eða litlar íbúðaeiningar fyrir einstaklinga eða fyrirtæki. Hugsa þarf til framtíðar og vera ávallt tilbúin með nýtt skipulag, nokkur ár fram í tímann.

Í nýju skipulagi þarf að huga að fleiru en íbúðabyggð. Svæði fyrir verslun og þjónustu, leikskóla og grunnskóla, atvinnu og afþreyingu þurfa að vera til taks. Einnig er mikilvægt að finna staðsetningu fyrir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og nýjan kirkjugarð í eða við þéttbýlið.

Velferðarmál 

Sú bæjarstjórn sem tekur við í maí þarf að vinna saman sem einn maður og setja allan sinn kraft í að þrýsta á stjórnvöld svo nýtt hjúkrunarheimili rísi hér á kjörtímabilinu.

Við þurfum að vera í fararbroddi með aðgengi fyrir alla, hvetja og aðstoða fyrirtæki og stofnanir til endurbóta á aðgengismálum.

Tryggja þarf starf virkniþjálfa hjá sveitarfélaginu til þess að efla heilsueflingu fyrir meðal annars

60 ára+

Heimahjúkrun verði efld á kjörtímabilinu og fólki gefinn kostur á að búa lengur heima með aukinni aðstoð og öryggi.

Sveitarfélagið verði leiðandi í atvinnusköpun fyrir fólk með skerta starfsgetu og tryggja þarf akstursþjónustu fyrir fólk með skerta hreyfigetu með viðeigandi farartæki.

Stöndum vörð um heilbrigði starfsfólks sveitarfélagsins með viðeigandi fræðslu og stuðningi.

Íþrótta -frístunda og skólamál 

Við teljum að nýtt íþróttahús verði mikil bragarbót fyrir sveitarfélagið og þá sérstaklega börnin okkar sem fá aðstöðu við hæfi fyrir fjölbreytt og öflugt íþróttastarf. Íþróttahúsið myndi einnig nýtast fyrir heilsueflingu 60 ára og eldri, virkniþjálfun félagsþjónustunnar og fleira.

Með breytingum á gamla íþróttahúsinu myndu svo bætast allt að 2000m2 við hús grunnskólans sem nýta mætti með margskonar hætti, t.d fyrir sal, mötuneyti, lengda viðveru, kennslustofur eða annað.

Ljúkum endurbótum á Sindrabæ og gerum hann að glæsilegu tónlistarhúsi okkar Hornfirðinga.

Umhverfis- og sorpmál 

Við viljum setja upp grenndarstöðvar í dreifbýli í samstarfi við landeigendur og þannig bæta sorphirðu í dreifbýli. Einnig er það okkar vilji að bæta þjónustu í þéttbýli.

Sveitarfélagið skal vera leiðandi í loftslags og umhverfismálum og hvetja íbúa og fyrirtæki enn frekar til notkunar á vistvænum farartækjum .

Vinna þarf í því að ljúka fráveitu á Höfn og koma dælustöð í fulla virkni.

Auðveldum einstaklingum og fyrirtækjum flokkun. Minnkum magn sem fer til urðunar í Lóni!

Með betri þekkingu og umhverfisvitund stuðlum við að aukinni sjálfbærni og betra umhverfi. Meðal annars með breyttum orkugjöfum í samgöngum og iðnaði, minni matarsóun og almennt betri endurnýtingu.

Menningarmál 

Stöndum vörð um hið fjölbreytta og metnaðarfulla menningarstarf sem félagasamtök, einstaklingar og hið opinbera, standa fyrir hér í sveitarfélaginu. Styrkjum það enn frekar og hvetjum til dáða. Skoðum útfærslu á því að færa sýningar sveitarfélagsins á stafrænt form.

Sýnum safnmunum okkar virðingu með því að sýna þá í þeirra rétta umhverfi með því að nýta t.d. félagsheimili sveitarfélagsins eða í samstarfi við einkaaðila.

Stöndum betur að menningarhúsi Hornafjarðar, Mánagarði, með uppbyggingu og fjölbreytni í huga, t.d. við sýningarhald.

Stórfjölskyldan 

Við viljum skapa vænlegra samfélag fyrir stórfjölskylduna þar sem fjölbreyttni og jákvæðni fær að dafna því hún er grunnstoð hvers samfélags. Við viljum gjaldfrjálsan leikskóla á kjörtímabilinu.

Við viljum efla ýmis útivistarsvæði og leikvelli. Stuðla þannig að ánægjulegum samverustundum íbúa og gesta á öllum aldri undir heiðbláum himni Hornafarðar, t.d. bæjargarðinn við sundlaugina, þar sem stórfjölskyldan gæti komið saman með nesti.

Við viljum halda opinberum gjöldum í lágmarki bæði fyrir íbúa og fyrirtæki.

Heilsueflandi, jákvætt og fjölskylduvænt samfélag er aðdráttarafl og ákjósanlegri staður til að búa á til framtíðar