Uncategorized

Lífið eftir vinnu

Lífið eftir vinnu, hvernig er því háttað í Sveitarfélaginu Hornafirði? Þetta er meðal þeirra spurninga sem væntanlegir nýbúar spyrja sig þegar þeir kanna svæði til búsetu. Og það gildir um allt sveitarfélagið. Öll höfum við þarfir og langanir til að sinna fjölbreyttri afþreyingu sem og eflingu hugar og líkama. 

Það eru margir sem koma að slíku, einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Hvað gerir sveitarfélag til að stuðla að því að það sé áhugavert að koma og búa í okkar samfélagi, nú eða halda áfram að búa með okkur eftir starfslok?

Það er hlutverk sveitarfélags að hafa skipulagið fyrirsjánlegt, eiga bygginga­lóðir sem og lóðir fyrir atvinnuhúsnæði. Stuðla að því að nægt framboð sé af leikskólaplássum og að standa þétt við grunnskólana. Einnig er nauðsynlegt að styðja við félagasamtök og einstaklinga til að standa að fjölbreyttu menningar- og íþróttastarfi.

Það að geta farið á hestbak, á kajak, í golf eftir vinnu, eða leyfa börnunum okkar að stunda ýmsar íþróttir, tónlistarnám eða annað listnám eru sjálfsögð lífgæði sem við sem lifum á 21. öldinni viljum njóta. 

Svo við tölum nú ekki um að geta sungið í öllum okkar frábæru kórum, farið á söfn eða tekið þátt í leikfélaginu okkar sem fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. 

Auðvitað er mikið sem hægt er að bæta í öllu Sveitarfélaginu Hornafirði. Okkur í Sjálfstæðisflokknum langar t.d. mikið til að stuðla að frekari uppbyggingu í Öræfum, þar sem mikil fjölgun er af ungu og kraftmiklu fólki. Okkur langar að halda áfram samtalinu sem hafið er, hvort sem það er á vettvangi hverfisráðs sem við viljum stofna nú eða bara með beinu samtali við þá Öræfinga sem áhugasamir eru um slíkt. Við sjáum fyrir okkur mikið meira samstarf, bæði við þau fyrirtæki sem eru starfandi í dreifbýlinu, Vatnajökulsþjóðgarð, sem og skólayfirvöld. Við teljum að allir vilji, og séu á sömu brautinni um aukna velferð allra íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Á Höfn er einstakt hvað við eigum marga möguleika til afþreyingar, sama hvort það er að sigla um fjörðinn okkar, t.d. á kajak, þeytast um á motocrossbrautinni, stunda hestamennsku eða æfa hinar ýmsu íþróttir sem félögin sem og fyrirtæki okkar bjóða uppá, nú eða bara ganga um í Óslandinu. Betur má ef duga skal, við þurfum að gera betur t.d. fyrir þau ungmenni sem ekki finna sig í hefðbundnu íþróttastarfi, finna farveg fyrir þau til að blómstra t.d. í leiklist, kvikmyndagerð eða öðrum skapandi greinum, við þurfum að nýta orkuna þeirra til að auðga samfélagið okkar enn frekar. Það að taka þátt í slíku starfi hefur gríðarlegt forvarnargildi fyrir börn og ungmenni og það er eitthvað sem við viljum öll stuðla að.  

Svo er það lífið eftir vinnu þegar við verðum komin á þann aldur að hafa valið um að hætta að mæta til vinnu. Við sem samfélag þurfum alltaf að hafa það í huga að halda vel utan um þann stækkandi hóp, og við viljum öll geta boðið uppá fjölbreytni fyrir alla aldurshópa. Ágætt starf er hér á Höfn fyrir eldri íbúa, en auðvitað þarf að styðja það enn frekar, t.d. með eflingu starfs virkniþjálfa, bjóða upp á enn frekari líkamsþjálfun. Einnig væri ákjósanlegur frekari stuðningur við félag eldri íbúa til að hvetja til ýmisskonar menningarstarfs eða hvers annars, þar sem við öll íbúar samfélagsins fengjum að njóta, sama hver staða okkar er. Sú hugmynd hefur verið viðruð hjá okkur, hvort við gætum ekki nýtt félagsheimilin okkar í sveitarfélaginu betur, t.d. með að koma á skipulögðu félags- eða tómstundastarfi fyrir eldri íbúa til sveita, t.d. með reglulegri viðveru þjálfara eða kennari í hinum ýmsu íþróttagreinum, og eða hverju öðru sem íbúarnir hefðu áhuga fyrir. 

Aðalatriðið er að við erum öll eitt samfélag hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, sem er fyrir alla. Tölum saman, verum heiðarleg, fordæmum ofbeldi, sama í hvaða formi það birtist, aukum gæði samfélagsins okkar og styðjum þannig hvert annað í leik og starfi.

Við Sjálfstæðismenn í Sveitarfélaginu Hornafirði óskum eftir stuðningi ykkar í kostningunum þann 14. maí n.k.

Setjum X við D.

Gauti Árnason.